Hópur Rússa á Íslandi hefur boðað til mótmæla á miðvikudag við bústað rússneska sendiherrans á Íslandi. Mótmælin hefjast klukkan 19 á miðvikudag við bústaðinn, sem stendur við Túngötu.
Í yfirlýsingu frá aðgerðasinnum segir að þar verði pyntingum stjórnvalda gegn stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní mótmælt. Navalní var handtekinn við komuna til Rússlands 17. janúar eftir að hafa snúið aftur úr læknismeðferð í Þýskalandi.
Navalní er sagður þungt haldinn í fangelsi og ekki fá viðeigandi læknisþjónustu. Hafa læknar sagt að hann muni deyja „á næstu dögum“ fái hann ekki aðhlynningu. Vestrænir stjórnmálamenn hafa fordæmt meðferðina á Navalní og Bandaríkjaforseti hótað frekari refsiaðgerðum.
Í yfirlýsingu frá hópi Rússa á Íslandi er kallað eftir því að Navalní og öðrum „pólitískum föngum“ í Rússlandi verði sleppt úr haldi. Hópurinn hefur hafið undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld hér á landi eru hvött til að endurskoða samskipti Íslands og Rússlands og beita sér fyrir því að mannréttindi í Rússlandi verði virt. Eins er þess krafist að „kúgunarlög“ sem hefta starfsemi frjálsra félagasamtaka séu felld úr gildi.