Segir fréttir af heilsu Navalnís uggvekjandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir að fréttir af hrakandi heilsu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís séu uggvænlegar. Ofbeldi rússneskra stjórnvalda í garð mótmælenda sé ekki viðunandi, rússneskum stjórnvöldum beri að virða rétt þeirra til mótmæla. 

„Þetta eru uggvekjandi fréttir af heilsu Navalnís. Það hafa verið gríðarlega fjölmenn mótmæli um allt land í Rússlandi og hafa verið síðan hann var handtekinn við komuna frá Þýskalandi fyrir nokkrum vikum, þar sem hann lá á sjúkrahúsi eftir að hafa sætt morðtilraun,“ segir Guðlaugur við mbl.is. 

Ísland tekur þátt í refsiaðgerðum gegn sex einstaklingum og einum lögaðila í Rússlandi ásamt Noregi og aðildarríkjum ESB. Aðgerðirnar felast í ferðabanni gegn umræddum aðilum og frystingu eigna þeirra. Bandaríkin og Bretland hafa ráðist í sambærilegar aðgerðir, eins og Guðlaugur leggur áherslu á.

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Ofbeldi gegn mótmælendum óviðunandi

Guðlaugur segir að mjög alvarlegt sé að Navalní hafi verið sýnt banatilræði á sínum tíma og sömuleiðis sé mjög alvarlegt hvernig meðferð mótmælendur í Rússlandi sæta af hálfu yfirvalda. Hann hefur enda vakið athygli á stöðu Navalnís í ræðu sinni fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

„Það er alveg ljóst að mikill fjöldi fólks í Rússlandi gerir alvarlegar athugasemdir við meðferðina sem Navalní sætir og það ofbeldi sem við höfum séð á þeim mótmælendum er ekki viðunandi. Það er réttur fólks að mótmæla með þessum hætti og rússnesk stjórnvöld eiga náttúrlega bara að bera virðingu fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert