Einstaklingar sem fara í einkennasýnatöku eiga að vera í einangrun þar til niðurstaða berst líkt og fram kemur í pósti sem fólk fær sem er á leið í einkennasýnatöku. Þar segir: Ef með einkenni þarftu ad fylgja leidbeiningum um einangrun þar til niðurstaða sýnatöku liggur fyrir.“
Einangrun er strangara úrræði en sóttkví og leggur því auknar kröfur á þann sem er í einangrun umfram þær sem gilda um sóttkví að því er segir á covid.is.
Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms. Þegar um einkennasýnatöku er að ræða er fólk væntanlega með einkenni sem geta bent til þess að viðkomandi er smitaður af Covid-19 og því nauðsynlegt að fara með gát. Hægt er að lesa nánar um þetta hér.
„Það er alveg á hreinu að þú ert í sóttkví þangað til að þú ert búin að fá niðurstöðuna,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Mbl.is hafa borist ábendingar um að þeir sem fari í sýnatöku virði ekki einangrun þar til niðurstaða sýnatöku er ljós. Um 2.800 sýni voru tekin á Suðurlandsbrautinni í dag.
Sóttkvíin á þá ekki við um þá einstaklinga sem fara í sýnatöku vegna þess að þeir eru á leið úr landi. Það er til þess að fá neikvætt PCR-próf.
Upplýsingarnar eru ekki auðfundnar á heilsuveru.is né á covid.is, en ljóst er að þegar einstaklingur hefur bókað sig í sýnatöku inni á heilsuveru er hann látinn vita að upplýsingar birtist undir Samskipti á næstu mínútum. Þar birtast skilaboðin:
„Athugaðu að þú ert í einangrun frá því að sýnataka er ákveðin og þar til niðurstaða liggur fyrir.“
Auk þess fær sá sem pantar sýnatöku SMS þar sem stendur: „Ef með einkenni þarftu að fylgja leiðbeiningum um einangrun þar til niðurstaða sýnatöku liggur fyrir. Sjá nánar á heilsuvera.is eða covid.is.“