Ísland hefur tekið sæti í stýrihópi og undirbúningsnefnd Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) vegna Alþjóðlegs áratugar frumbyggjamála (2022-2023) en markmið þess verkefnis er að vekja athygli á alvarlegri fækkun slíkra tungumála og brýnni þörf á að varðveita, endurlífga og efla þau og kynna jafnt á lands- og alþjóðavísu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Fulltrúi Íslands í stýrihópnum er Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og deildarforseti mála- og menningardeildar Háskóla Íslands.
„Tungumál sem fáir tala, líkt og íslenska, eiga í vök að verjast. Flest tungumál heimsins eru notuð af fáum og mörg þeirra flokkast sem mál í útrýmingarhættu, hvort sem þau eru opinber mál þjóðríkja, minnihlutamál eða frumbyggjamál. Með auknu sambýli tungumála er mikil hætta á jaðarsetningu slíkra mála sem að lokum getur leitt til útrýmingar þeirra; til dæmis eru færri en eitt hundrað þeirra 6.500 tungumála, sem töluð eru í heiminum, notuð á stafrænan hátt og aðeins örfá hundruð tungumála eru kennd í skólum heimsins,“ segir í tilkynningu.