Íslensk erfðagreining gengst í dag fyrir fræðslufundi um nýjustu rannsóknir sínar á Covid-19. Nokkurrar eftirvæntingar gætir vegna niðurstaðna þessara rannsókna, sem e.t.v. má sjá á því að á fundinum verða forystumenn ríkisstjórnarinnar auk heilbrigðisráðherra sérstakir gestir.
Vonast er til þess að niðurstöðurnar varpi betra ljósi á sjúkdóminn, eftirköst hans og hvernig megi verjast honum.
„Við erum með stóra stúdíu á langtímaafleiðingum sjúkdómsins, við erum með stóra stúdíu á ónæmi og stóra stúdíu um það hvernig veiran berst á milli í samfélaginu,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í Morgunblaðinu í dag. „En eftirvæntingin veltur sjálfsagt á væntingum hvers og eins!“
Á fundinum munu Hilma Hólm hjartalæknir og Erna Ívarsdóttir tölfræðingur kynna helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sinnar á langtímaáhrifum SARS-CoV-2-sýkingar, en svo munu þau Daníel Fannar Guðbjartsson stærðfræðingur og Þórunn Á. Ólafsdóttir ónæmisfræðingur kynna rannsókn sína á því hvernig líkaminn losar sig við veiruna og verst endurteknum sýkingum.
Fundurinn hefst klukkan 14 og verður streymt beint, en streymið má nálgast á mbl.is. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, stýrir fundinum og dregur saman í lokin hvaða lærdóma megi draga af þessum rannsóknum í viðureigninni við fjórðu bylgju heimsfaraldursins á Íslandi.