Lyktarskynið batnar með tímanum

Hilma Hólm hjartalæknir á fræðslufundinum fyrr í dag.
Hilma Hólm hjartalæknir á fræðslufundinum fyrr í dag. Eggert Jóhannesson

Skert lykt og bragð tengist sterkt Covid-19-sýkingu en tengist lítið alvarleika sýkingarinnar og lagast með tímanum. 32% þeirra sem greindust með Covid-19 eru með alvarleg einkenni 5-11 mánuðum síðar. Þetta eru niðurstöður Hilmu Hólm hjarta­lækn­is og Ernu Ívars­dótt­ur töl­fræðing­s úr nýrr­i rann­sókn­ þeirra á lang­tíma­áhrif­um SARS-CoV-2-sýk­ing­a sem kynntar voru á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar fyrr í dag.

Í september 2020 hóf Íslensk erfðagreining að bjóða þeim sem sýkst höfðu af Covid-19 að koma í rannsókn til þess að meta heilsufarsafleiðingar. Í lok febrúar á þessu ári höfðu 1.141 af þeim sem greindust í fyrstu bylgju komið í rannsóknina en það eru yfir 60% þeirra sem veiktust.

Einstaklingarnir tóku þátt í rannsókninni 5-11 mánuðum eftir að sýking greindist og voru þeir bornir saman við viðmiðunarhóp.

Einstaklingunum var skipt í hópa eftir því hversu alvarlega veikir þeir voru í upphafi. 439 voru í þeim hópi sem fengu væg einkenni og 49 í þeim hópi sem þurfti spítalainnlögn eða um 4%.

Í rannsókninni voru þátttakendur spurðir um einkenni síðustu fjórar vikur. „Af hátt í 90 einkennum sem við spyrjum um þá eru þeir þátttakendur sem höfðu fengið veiruna með nánast öll einkenni mun oftar heldur en hinir,“ sagði Hilma.

Erna Ívarsdóttir tölfræðingur á fræðslufundinum fyrr í dag.
Erna Ívarsdóttir tölfræðingur á fræðslufundinum fyrr í dag. Eggert Jóhannesson

Tvöfalt líklegri til að skimast með skert lyktarskyn

Einkennum sem tengjast SARS-CoV-2 var skipt í tvo klasa. Í öðrum klasanum var skert/truflað lyktarskyn og skert/truflað bragðskyn.

„Það sem við sjáum er að lyktartruflun tengist mjög lítið alvarleika veikinda. Skiptir ekki máli hvort þú varst með lítil einkenni eða mikil einkenni. Jafn líklegt að lyktin truflaðist,“ sagði Hilma. Erna benti á þeir sem veiktust af Covid væru líklegri til að meta lyktir daufari og verri heldur en viðmiðunarhópurinn og var hópurinn tvöfalt líklegri til að skimast með skert lyktarskyn.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstöður lyktarprófsins voru þá þær að eftir því sem lengri tími er liðinn frá greiningu fer hlutfall þeirra sem skimast með skert lyktarskyn að lækka.

„Þannig að þeir sem að komu 5-6 mánuðum eftir greiningu skimuðust 20% með skert lyktarskyn en ef það voru 9-11 mánuðir liðnir frá greiningu skimuðust 8% með skert lyktarskyn og þá er ekki lengur munur á þeim og viðmiðunarhópnum svo þetta sýnir að lyktarskynið er að batna með tímanum,“ sagði Erna.

32% finna fyrir verulegum einkennum og tíðnin fer ekki minnkandi með tíma

Í hinum klasanum voru mæði, minnistruflanir, vanlíðan eftir áreynslu, einbeitingarskortur, þreyta, slappleiki, brjóstverkir og hraður hjartsláttur. En 32% þeirra sem fengu SARS-CoV-2 eru með veruleg slík einkenni 5-11 mánuðum eftir sýkingu.

Þessi einkennaklasi tengist mjög alvarleika veikinda. „Því veikari sem þú varst því verr líður þér núna 5-11 mánuðum síðar,“ sagði Hilma. Hún benti einnig á að þeir sem veiktust hvað mest hafi meiri kvíða- og þunglyndiseinkenni og að þeirra heilsutengdu lífsgæði væru verri.

Eins og áður segir eru 32% þeirra sem fengu Covid-19 með mikil einkenni úr seinni einkennaklasanum. Úr viðmiðunarhópnum hafa 14% sömu einkenni svo hér er um að ræða meira en tvöfalda aukningu.

Frá fræðslufundinum í dag.
Frá fræðslufundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig að mikil einkenni væru alvarlegri hjá konum en um 40% kvenna fundu fyrir miklum einkennum.

Hilma benti einnig á að 60% þessara einstaklinga þurftu að minnka við sig störf, draga úr námi og þrífa minna. Þá þurftu 16% að minna mikið við sig.

„Það sem við sjáum síðan líka er að tíðni þessara einkenna er ekki mikið að minnka með tíma frá sýkingu. Það er að segja þetta er jafn algengt hjá þeim sem komu til okkar 5 mánuðum eftir veikindi og 11 mánuðum eftir veikindi,“ sagði Hilma

Áreynsluþol lækkar hjá samfélaginu öllu

Áreynsluþol mældist verra hjá þeim sem veiktust af Covid-19 borið saman við viðmiðunarhópinn og þau 32% sem greindust með mikil einkenni mældust einnig með verra áreynsluþol. Hins vegar var verra áreynsluþol einnig áhættuþáttur fyrir verri veikindum í upphafi sýkingar.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu þó líka að þeir sem komu í áreynslupróf bæði fyrir og eftir faraldurinn eru einnig með verra áreynsluþol. „Þá lækkar áreynsluþol ekki bara hjá þeim sem veiktust af Covid heldur líka hjá viðmiðunarhópnum sem er líklega út af hreyfingarleysi í samfélaginu,“ sagði Erna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert