Reisa á tíu nýjar svítur við Hótel Grímsborgir á þessu ári. Framkvæmdir hefjast í dag og gerir eigandi hótelsins, Ólafur Laufdal Jónsson, ráð fyrir að svíturnar verði komnar í notkun í lok árs.
Framkvæmdirnar eru liður í því að gera betur við gesti, en hótelið hlaut fimm stjörnur fyrir um einu og hálfu ári, fyrst hótela á Íslandi. Ólafur segir að bókanir séu farnar að berast frá útlöndum en sterkustu markaðirnir eru í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir að þótt fjöldinn sé ekki mikill sé fjöldi bókana stöðugur og greinir hann meiri áhuga frá Bandaríkjunum.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að Bandaríkjamarkaður sé að taka fyrr við sér heldur en Evrópumarkaðurinn og að fyrirtæki sem þjónusti helst ferðamenn frá Evrópu gætu þurft að bíða lengur en þau fyrirtæki sem þjónusti ferðamenn frá Bandaríkjunum.