Best að láta ekkert koma sér á óvart

Margar ástæður geta verið fyrir því að tveir nyrstu gígar eldgossins í Geldingadölum eru hættir að gjósa. Ein er þrýstingsfall og önnur er stífla, þ.e. að storknað hafi í gosrásinni. Þetta segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus.

Hann segir stöðugar breytingar hafa verið á gosrásunum strax frá þriðju viku gossins og að þetta sé hluti af því. Gígar hafi bæst við og síðan hætt og gefist upp. „Gosið er allan tímann búið að vera dálítið máttlítið en það hafa ekki verið neinar stórkostlegar breytingar á flæðinu. Það er lítið og nokkuð jafnt,“ segir Páll.

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin sérstök merki eru um að það sé að draga úr gosinu eins og staðan er núna en ekki er hægt að segja til um það fyrr en nýtt mat kemur á rúmmálstölum á hraunrennslinu. Annan hvern dag hefur verið flogið yfir svæðið og teknar loftmyndir. „Þá er hægt að gera hæðarlíkan af svæðinu og draga gamalt hæðarlíkan frá. Þá fær maður heildarrúmmálið,“ útskýrir hann og segir hraunið hafa verið býsna stöðugt hingað til. Einhver mismunur hafi verið í mælingum en hann sé nánast innan mælióvissu.

Best að bíða með nöfnin

Gígarnir tveir sem mynduðust á öðrum degi páska hafa verið kallaðir Páskagígar en aðrir gígar hafa verið kallaðir Suðri og Norðri. Aðspurður segir Páll engin vinnuheiti hafa unnið sér sess þegar kemur að gígunum. Þægilegast sé að notast við tölur enda séu gígar að koma og fara og breyta um lögun. Því sé ekkert sérlega sniðugt að gefa þeim nafn of snemma.

Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur á gosstöðvunum.
Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur á gosstöðvunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort eitthvað við gosið núna hafi komið honum á óvart nefnir Páll helst hversu jafnt það er og breytingarnar litlar. Hann segir ómögulegt að segja til um hversu lengi það mun standa yfir. „Það eru dæmi um gos af þessu tagi sem hafa staðið stutt og önnur mjög lengi,“ segir hann hann og bætir við: „Núna er bara að bíða og fylgjast með og reyna að láta ekkert koma sér á óvart. Það eru fjölmörg dæmi um alls konar útgáfur í sambandi við svona gos.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölþjóðlegur vinnuhópur rannsakar gosið

Áhugi vísindamanna á eldgosinu er að vonum mikill. Páll segir stóran vinnuhóp starfa við rannsóknir á gosinu, bæði Íslendinga og útlendinga sem starfa bæði hér á landi og erlendis og leggja í púkkið, meðal annars með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Hann nefnir íslenska samstarfsmenn í Sádi-Arabíu og á Nýja-Sjálandi sem taka virkan þátt í rannsóknunum og fólk frá Ástralíu, Frakklandi og Bretlandi sem starfar hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka