Þeir sem ætla sér á gossvæðið í Geldingadölum fyrir hádegi þurfa að hafa það hugfast að frá miðnætti til hádegis eru engir viðbragðsaðilar á svæðinu til að mæla gasmengun og bregðast við óhöppum. Gossvæðið er hættulegt og ekki síst vegna lélegra loftgæða.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum en viðbragðsaðilar eru á svæðinu frá hádegi og til miðnættis.
Bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skal bílum á skipulögðum stæðum á grasflötum við veginn en aðkoma að bílastæðum er bæði úr austri og vestri.
Fólki er bent á að áætla megi að ganga taki um þrjár til fjórar klukkustundir fram og til baka fyrir vant göngufólk. Fólk hafi síma fullhlaðna og sé með höfuðljós eða vasaljós og aukarafhlöður í kvöldgöngu.
Suðvestan 5-10 m/s og éljagangur. Vindur í éljum á bilinu 8-13 m/s. Líklegt að gas geti safnast upp í kringum gosstöðvarnar framan af degi en blási síðan burt í éljum. Bætir heldur í vind síðdegis, vestlæg átt, 8-13 undir kvöld. Loftið er nokkuð óstöðugt og því líklegt að gasið sem kemur úr gígunum muni rísa hátt og blandast í andrúmsloftinu og því ólíklegt að há gildi mælist í byggð þó að gasið leggi yfir höfuðborgarsvæðið. Hiti á svæðinu um eða rétt yfir frostmarki.