Ríkisstjórnin hefur lagt til að aðgerðir á landamærunum vegna kórónuveirunnar verði hertar hjá þeim löndum þar sem nýgengi smita er meira en 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa. Þar sem nýgengið er 750 á hverja 100 þúsund íbúa verður almenna reglan að ferðamenn fari í sóttvarnahús en hægt verður að sækja um undanþágu þess efnis.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.
Dómsmálaráðherra mun einnig fá heimild til að banna ónauðsynlegar ferðir frá löndum þar sem nýgengi smita er umfram 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa.
„Það eru mikil vonbrigði að afar fámennur hópur sem hefur ekki verið að virða gildandi reglur geti valdið eins mikilli röskun og raun ber vitni í samfélaginu. Við því verðum við nauðsynlega að bregðast,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum.
Holland, Frakkland, Pólland og Ungverjaland eru þau fjögur Evrópulönd sem eru með nýgengi smita yfir 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa, sagði Katrín í samtali við RÚV.
1. júní ætlar ríkisstjórnin að innleiða svæðisbundið áhættumat sem byggir á litakóðunarkerfi ESB en er samt sjálfstætt mat innlendra sérfræðinga á stöðunni í löndunum í kringum okkur.
Þangað til verða hertar aðgerðir á landamærunum um leið og frumvörp þess efnis hafa verið samþykkt á Alþingi.
Katrín sagði á fundinum að áhættumatið 1. júní miðist við aukna bólusetningu eldri hópa hér á landi. Það dragi úr alvarlegum áhrifum faraldursins með færri innlögnum á sjúkrahús eftir því sem fleiri eldri einstaklingar séu bólusettir. Hún nefndi að 1. maí verði allt fólk 70 ára og eldri komið með að minnsta kosti fyrri skammt bólusefnis hér á landi.
„Á meðan við erum að ná þessum markmiðum er mikilvægt að herða ráðstafanir á landamærum,“ sagði hún.
Stefna okkar frá upphafi hefur verið að vernda heilsu landsmanna en lágmarka efnahagsleg áhrif af völdum kórónuveirufaraldursins, sagði hún einnig.