Vinir Vatnshólsins komu saman á hólnum á sjómannaskólareitnum um helgina til að mótmæla framkvæmdum við íbúðablokk á horni Vatnsholts og Háteigsvegar.
Talið er að um 150 manns hafi látið sjá sig, fullorðnir sem börn. Var áletruðum trékrossum stungið niður í moldina. Vildu íbúar þannig benda á með táknrænum hætti að verið væri að taka af leiksvæði barna, sem hafa rennt sér niður hólinn á snjóþotum að vetrarlagi.
Á krossunum stóð m.a. „Ævintýrin okkar“ og „Hjarta hverfisins“. Frá því framkvæmdir hófust við blokkina fyrir um mánuði hafa börn úr hverfinu tekið sér stöðu við hólinn til að minna á sinn málstað.
Ung stúlka í hverfinu bauð borgarstjóra og borgarfulltrúum í útsýnisferð um svæðið sl. laugardag. Borgarstjóri mætti og fimm aðrir borgarfulltrúar. Bergrún Tinna Magnúsdóttir, ein talsmanna Vina Vatnshólsins, segir að mótmælunum verði haldið áfram, segir hún í Morgunblaðinu í dag.