Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra líst ekkert á það að hópur nokkurra af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu segi skilið við Meistaradeild Evrópu og stofni sína eigin ofurdeild. Katrín er mikill stuðningsmaður Liverpool, sem hyggst taka þátt í áformunum.
„Ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum að sjá mitt lið í þessum hópi. Ég held jafnvel að þessi vegferð verði bara eitthvað sem þeir verði að ganga einir, þvert á lagið góða,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Katrín talar um að þetta sé birtingarmynd þess að aukin viðskiptasjónarmið hafi orðið sífellt meira áberandi í knattspyrnu yfir undanfarin ár.
„En þarna finnst mér þau komin yfir öll mörk. Mér finnst við algjörlega vera búin að missa sjónar á því fyrir hverja þessi lið eru að spila en það er auðvitað fyrir stuðningsmennina sem fylgja þeim í rauðan dauðann og standa með þeim í blíðu og stríðu. Þarna er verið að búa til lokaðan klúbb og koma í veg fyrir að liðin geti fikrað sig upp og mætt þessum stóru liðum,“ segir Katrín að lokum.
Þá hafa nýlega borist fréttir þess efnis að ensku knattspyrnufélögin Manchester City og Chelsea hyggist ekki taka þátt í ofurdeildinni. Ásamt þeim koma AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester United, Real Madrid og Tottenham öll að stofnun deildarinnar.
The fans are the spirit & heart of every sport, this sport is nothing without them. When greed & capitalism completely take over, the heart of the sport is lost. I will not follow @LFC in this journey, the owners will have to walk alone on this one. #SuperLeagueOut
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) April 20, 2021