Bæði Cocoa Puffs- og Lucky Charms-morgunkorn verður áfram til sölu í Kosti. Þetta staðfestir Tómas Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Kosts, í samtali við mbl.is.
Hann segist hafa sett í sig í samband við heilbrigðiseftirlitið í Kópavogi sem staðfesti að engin reglugerð sem snerti innflutning á morgunkorninu hafi breyst.
Hann gerir því áfram ráð fyrir að bjóða upp á gamla góða Cocoa Puffsið sem seldist upp á örskömmum tíma hjá honum eftir að heildsalinn Nathan & Olsen tilkynnti að fyrirtækið myndi ekki lengur bjóða upp á vörumerkin Cocoa Puffs og Lucky Charms frá General Mills.
Þegar fréttirnar bárust voru til nokkrar birgðir af Lucky Charms hjá Kosti og því enn hægt að kaupa morgunkornið á síðu Kosts.
Tómas segir að miðað við sínar upplýsingar snúist málið um samstarf framleiðenda og heildsala en ekki reglugerðir eða leyfismál. Hans viðskiptasambönd séu önnur en Nathan & Olsen og hann sjái fram á að geta áfram flutt inn morgunkorn sem framleitt er í Bandaríkjunum.
Tómas segir að líklegt sé að um þrjár vikur séu í næstu sendingu af Cocoa Puffs.