Nemendur Vallaskóla í úrvinnslusóttkví

Vallaskóli á Selfossi.
Vallaskóli á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Grunur leikur á um Covid-19-smit meðal tveggja barna í Vallaskóla á Selfossi og hafa allir nemendur í 2. bekk og 4. bekk verið sendir í úrvinnslusóttkví. Þetta kemur fram á vef skólans í gær. Þar kemur fram að ekki er um staðfest smit að ræða en annað barnið er í öðrum bekk en hitt í fjórða bekk. 

„Til að gæta fyllsta öryggis og varúðar eru foreldrar og forráðamenn barna í 2. og 4. bekk vinsamlega beðin/n að halda þeim heima í úrvinnslusóttkví (allt að tveir dagar) á meðan unnið er að frekari smitrakningu í skólanum.

Áríðandi! Allt heimilisfólk er einnig beðið um að vera heima á meðan úrvinnslusóttkví stendur. Nánari upplýsingar verða sendar út um leið og þær liggja fyrir,“ segir á vef Vallaskóla. 

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru starfsmenn frístundaheimilisins Bifrastar í Vallaskóla einnig komnir í sóttkví.

Í tilkynningu frá Árborg segir að eðlilega sé mikil röskun á skólastarfi Álfheima, Vallaskóla og Bifrastar þar sem margir munu fara í skimun í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert