Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa samtals verið að störfum í hátt í níu þúsund klukkustundir við eftirlit vegna eldgossins í Geldingadölum síðan það byrjaði fyrir um mánuði og til dagsins í dag.
Ríkið greiðir fyrir framlag björgunarsveitarmanna þegar um langtímastarf á borð við þetta er að ræða, samkvæmt samningi Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ríkislögreglustjóra um hjálparlið almannavarna. Að sögn Guðbrands Arnar Arnarsonar hjá Landsbjörg, á félagið eftir að senda ríkinu reikning vegna eftirlitsins en ljóst er að hann nemur tugum milljóna króna. Miðað er við útseldan tíma lögreglumanns sem eru rúmlega 8.200 krónur.
Áður en reikningurinn verður sendur ríkinu verður haft samband við allar þær 48 björgunarsveitir sem hafa tekið þátt í eftirlitinu. Alls starfar 91 björgunarsveit hér á landi en sumar fámennustu sveitirnar hafa ekki tekið þátt vegna sóttvarnaaðgerða, segir Guðbrandur Arnar. „Oftast er beðið eftir því að náttúruhamförum ljúki en í þessu tilviki er þetta svo stórt verkefni að við gerum ráð fyrir að senda reikning eins fljótt og hægt er,“ segir hann og tekur fram að hingað til hafi Slysavarnafélagið Landsbjörg ekki rukkað fyrir lífbjörgun. Um leið og komið er í gæsluverkefni og endurreisn þá er rukkað fyrir slíkt.
Að undanförnu hafa 15 til 25 björgunarsveitarmenn verið við eftirlit á gosstöðvunum á degi hverjum. Þegar gosið var að byrja nam fjöldinn aftur á móti um 100 manns á dag og þá voru vaktirnar þrískiptar. Alls hafa um 800 manns frá félaginu starfað á gosstöðvunum.
Kristján Harðarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir gríðarlegan kostnað hafa fylgt eftirlitinu á gosstöðvunum, þar á meðal við að flytja fólk á svæðið. Meðal annars hafa björgunarsveitir komið að austan og annars staðar af landinu. „Þetta er mikið utanumhald og það er haldið utan um þessa tíma og þessar vaktir miðlægt frá okkur. Það er verið að safna þessum gögnum og yfirfara þau,“ segir Kristján og bætir við að unnið sé að endurnýjun samnings Landsbjargar og ríkislögreglustjóra um hjálparlið almannavarna.
Spurður hvenær félagið geti átt von á greiðslu frá ríkinu vegna eftirlitsins segir hann það geta verið allt frá einhverjum vikum eftir að reikningurinn er sendur yfir í einhverja mánuði. „Menn verða að skilja að þarna er verið að biðja um auka fjárveitingu,“ segir hann og telur eðlilegt að slíkt ferli taki langan tíma þar sem eldgosið er óvænt tilfelli.
Stefnt er á að ráða sérstakt teymi til að sinna eftirlitinu á gosstöðvunum í sumar í stað björgunarsveitanna. Kristján segir að horft hafi verið til vinnumiðlunar í þeim efnum og að þjálfað verði fólk til að taka við gæslunni. „Svona hjálparlið er hugsað í ákveðinn tíma þangað til önnur lausn kemur.“
Hann er annars hæstánægður með starf björgunarsveitarmanna á gossvæðinu og hversu margar sveitir hafi tekið þátt í starfinu.