Frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga var dreift á Alþingi í kvöld. Búist er við því að það verði tekið til meðferðar í þinginu á morgun.
Ríkisstjórnin hefur lagt til að aðgerðir á landamærunum vegna kórónuveirunnar verði hertar hjá þeim löndum þar sem nýgengi smita er meira en 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa. Þar sem nýgengið er 750 á hverja 100 þúsund íbúa verður almenna reglan að ferðamenn fari í sóttvarnahús en hægt verður að sækja um undanþágu þess efnis. Dómsmálaráðherra mun einnig fá heimild til að banna ónauðsynlegar ferðir frá löndum þar sem nýgengi smita er umfram 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa.
Í greinargerð með frumvarpinu er rakið að alls hafi 118 mál komið til kasta lögreglu vegna brota á sóttkví og einangrun frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Þar af eru 24 á þessu ári. „Öll málin sem upp hafa komið á árinu 2021 tengjast landamærunum. Samkvæmt upplýsingum frá smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna greindust á tímabilinu 1. febrúar til 1. apríl sl. 202 virk Covid-19-smit á Íslandi. Af þeim greindust 105 á landamærunum og 97 innanlands. Rakning og raðgreining á þessum smitum hefur leitt í ljós að öll Covid-19-smit hér á landi tengjast smitum af landamærum með einum eða öðrum hætti. Með hliðsjón af þessu er talið að bregðast þurfi við smitum sem berast inn í samfélagið frá landamærum með lagasetningu þar sem gildandi takmarkanir duga ekki til,“ segir í greinargerð.
Eins og komið hefur fram í fréttum af boðuðum landamæraaðgerðum stjórnvalda vilja þau fá heimild til að takmarka sérstaklega ónauðsynleg ferðalög hingað til lands frá svæðum sem skilgreind eru sem hááhættusvæði. „Með frumvarpinu er dómsmálaráðherra því veitt heimild til að setja reglugerð sem bannar útlendingum sem dvalið hafa á slíkum svæðum að koma til landsins. Heimilt verður að gera undanþágur vegna búsetu hér á landi og vegna brýnna erindagjörða. Með beitingu þessa úrræðis er því ekki aðeins unnt að minnka líkur á smiti innanlands heldur jafnframt draga úr álagi á landamærum og í sóttvarnahúsum,“ segir í greinargerð.
„Markmið þessa frumvarps er m.a. að skjóta lagastoð undir frekari sóttvarnaaðgerðir á landamærum. Þetta er lagt til í því augnamiði að færa stjórnvöldum skilvirkari heimildir í baráttunni við SARS-CoV-2-veiruna. Ávinningur þess að frumvarpið verði samþykkt er mikill fyrir almannahagsmuni,“ segir í mati á áhrifum frumvarpsins.