Stóri salurinn í Laugardalshöll verður notaður undir bólusetningar við Covid-19 frá og með þriðjudeginum eftir viku. Greint var frá því á mbl.is í gær að stórir bólusetningardagar séu fram undan.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að með því að taka stóra sal Laugardalshallarinnar undir bólusetningar sé hægt að taka á móti stærri hópum í einu og afgreiða bólusetningar hraðar.
Verið er að flota gólf og búa salinn undir að taka á móti fjölda manns fyrir bólusetningar næstu vikna.
Hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands mættu í Laugardalshöll í dag þar sem þeir spiluðu fyrir þá sem komu í bólusetningu og lífguðu þannig aðeins upp á biðina, en eftir bólusetninguna þarf fólk að bíða í 15 mínútur meðan fylgst er með því hvort einhver bráðaviðbrögð verði við gjöfinni.