Hrauntungan úr Geldingadölum hefur verið að teygja sig hægt og bítandi áfram í austurátt að Meradölum.
„Við erum að fylgjast með þessu. Það myndi hugsanlega myndast þar hraunfoss þegar og ef að því kæmi,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Meðal annars er fylgst með stöðu mála á svæðinu í gegnum myndavél sem tekur mynd á 10 mínútna fresti.
Hrauntungan hefur þegar farið yfir endann á gönguleið A. Fari svo að hrauntungan endi í Meradölum munu hraunin tengjast saman.
Gunnar segir að allt hafi verið með kyrrum kjörum á gossvæðinu það sem af er degi. Fátt fólk hefur verið á svæðinu og engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki, hvorki í dag né í gær. Hann býst við fleira fólki seinnipartinn í dag eins og venjan hefur verið.