Þórólfur sáttur við aðgerðir stjórnvalda

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði, í Kastljósi kvöldsins, að fréttir dagsins slái sig bara ágætlega. Sem kunnugt er boðaði ríkisstjórnin fyrr í dag hertar aðgerðir á landamærum.

„Ég hef nú ekki séð endanleg drög að frumvarpi en þetta slær mig bara ágætlega og í takt við það sem ég hef verið að tala um og mitt ákall til stjórnvalda um að fá heimildir til þess að geta sett fólk í sóttvarnahús þar sem smit eru mjög há. Mér sýnist þetta vera í takt við það,“ sagði Þórólfur.

Þá sagðist Þórólfur halda að tillögurnar væru nægilega róttækar en að við ættum enn eftir að sjá útfærsluna.

Eitt af því sem boðað var á fundinum í dag var að dómsmálaráðherra fengi heimild til að banna ónauðsynlegar ferðir frá löndum þar sem nýgengi smita er umfram 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa.

Þórólfur sagði það gott að hægt væri að grípa til slíkra aðgerða ef virkileg útbreiðsla yrði í einhverju landi af nýju afbrigði. Hann benti þó á að um örþrifaráð væri að ræða og hann sæi ekki fyrir sér að oft yrði gripið til þessa úrræðis.

Myndi taka AstraZeneca

Í Kastljósi ræddi Þórólfur einnig um bóluefni og bólusetningar. Þórólfur býst við því að fá bráðlega boð í bólusetningu, aldurs síns vegna. En hann hefur í tvígang verið boðaður í bólusetningu sem heilbrigðisstarfsmaður og neitað.

„Býst við að ég fái AstraZeneca og ég myndi taka það,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert