Staðan í kórónuveirufaraldrinum innanlands er „ekkert hræðileg“ en ekki sér enn fyrir endann á tveimur stórum hópsmitum sem komu upp rétt fyrir helgi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir alveg á nippinu hvort herða þurfi aðgerðir innanlands og er með nýtt minnisblað þess efnis í kollinum.
Alls greindist 21 með Covid-19 innanlands í gær og voru þrír þeirra utan sóttkvíar. Mjög mörg próf voru tekin en rúmlega 4.000 voru skimaðir innanlands.
„Þetta virðist dálítið útbreitt í þessum leikskóla sem hefur verið til umtals og fjölskyldum tengdum honum,“ segir Þórólfur en börnum á aldrinum eins til fimm ára í einangrun fjölgar úr 14 í 23 milli daga. Öll börnin tengjast leikskólanum Jörfa, þar sem stór hópsýking kom upp fyrir helgi.
„Við erum ekki að sjá frekari útbreiðslu, reyndar erum við að sjá smit á Selfossi og þar verða tekin sýni í dag. Það voru tekin nokkur hundruð skimunarsýni hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær og þar greindist enginn, sem er ánægjulegt. Það er ekki merki um víðtæka útbreiðslu í samfélaginu,“ segir Þórólfur.
Hann segir þetta eins og hægt hafi verið að búast við en svo geti smit blossað upp allt í einu, eins og dæmin sanni. „Þessar fjölskyldur tengdar leikskólunum tengjast öðrum skólum og við vitum ekki hvað hefur gerst þar. Við gætum átt eftir að sjá einhverja frekari útbreiðslu,“ segir Þórólfur og bendir á að ekki sjái fyrir endann á hópsmitunum.
Spurður hvort standi til að herða aðgerðir innanlands vegna smita síðustu daga sagði Þórólfur:
„Frá mínum bæjardyrum séð er það alveg á nippinu. Ef við förum að sjá meiri útbreiðslu og smit að koma upp hér og þar þá held ég að við verðum að skoða það mjög alvarlega.“
Hann kveðst snöggur að snara út minnisblaði þess efnis, ef á þarf að halda:
„Ég er alltaf tilbúinn og er fljótur að snara út ef á þarf að halda og í huganum er ég tilbúinn með blað.“