Guðmundur Steingrímsson, trommari og frumkvöðull íslenskrar jazztónlistar, lést 16. apríl sl., 91 árs að aldri.
Guðmundur, oft nefndur Papa Jazz, fæddist 19. október 1929 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Steingrímur Steingrímsson verkamaður og Hallgerður Lára Andrésdóttir verkakona.
Guðmundur spilaði undir á mörgum af frægustu dægurlagaperlum sjötta og sjöunda áratugarins og var einn helsti jazztónlistarmaður landsins.
Guðmundur var einna frægastur fyrir spilamennsku sína í KK-sextettinum, sem spilaði undir á feikimörgum plötum og urðu mörg laganna á plötunum geysivinsæl.
Einnig var Guðmundur í Tríói Guðmundar Ingólfssonar, sem lék m.a. með Björk Guðmundsdóttur á plötunni Gling gló sem er söluhæsta jazzplatan sem gefin hefur verið út hér á landi.
Guðmundur tók þátt í að móta tónlistarlíf Íslendinga á ofanverðri síðustu öld og ruddi veginn fyrir marga stærstu jazztónlistarmenn Íslands. Ævisaga Guðmundar, Papa Jazz, kom út árið 2009, sem Árni Matthíasson blaðamaður skrásetti.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Helga D. Benediktsdóttir. Fyrri eiginkona var Sesselja Unnur Guðmundsdóttir, d. 2018. Guðmundur og Unnur eignuðust fjögur börn; Kjartan, Guðrúnu, Láru, Steingrím og Helgu.