Kristófer Már Kristinsson, leiðsögumaður og kennari, lést aðfaranótt sl. mánudags, 72 ára að aldri. Hann var um tíma varaþingmaður fyrir Bandalag jafnaðarmanna og blaðamaður og fréttaritari Morgunblaðsins í Brussel.
Kristófer var fæddur í Reykjavík 3. ágúst 1948 og ólst þar upp í Kleppsholtinu. Foreldrar hans eru Guðmundur Kristinn Magnússon, stýrimaður og verkstjóri, og Ágústa Sigríður Kristófersdóttir, húsfreyja og starfsmaður heimilishjálparinnar í Reykjavík. Þau eru bæði látin.
Kristófer lauk stúdentsprófi frá MH og nam kennslu- og uppeldisfræði við Kennaraháskóla Íslands. Hann lauk leiðsöguprófi frá Ferðamálaskóla Íslands, BA-prófi í íslensku og MSc-prófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.
Hann stundaði almenna verkamannavinnu á yngri árum, var á sjó á fiskiskipum og fraktskipum og verkstjóri við Vinnuskóla Reykjavíkur. Að loknu kennaraprófi kenndi hann við Breiðholtsskóla og Ármúlaskóla. Hann var kennari við Héraðsskólann í Reykholti á árunum 1973 til 1984, síðar framkvæmdastjóri Bandalags jafnaðarmanna. Hann var í eitt ár fréttaritari Rúv í Brussel, fréttaritari og blaðamaður Morgunblaðsins þar í borg á árunum 1987 til 1993 og forstöðumaður Evrópuskrifstofu atvinnulífsins 1993 til 2004. Hann starfaði síðar sem leiðsögumaður og kennari við Ferðamálaskóla Íslands.
Kristófer var varaþingmaður Bandalags jafnaðarmanna og tók oft sæti á Alþingi á árunum1983 til 1986. Hann starfaði mikið í skátunum á yngri árum og tók virkan þátt í starfi ungmennafélaganna í Borgarfirði þegar hann bjó þar.
Eftirlifandi eiginkona Kristófers er Valgerður Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur og fv. þingmaður. Fyrri kona hans var Margrét Skagfjörð Gunnarsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn; Daða Má, Ágústu, Gísla Kort og Gunnar Tómas. Börn Valgerðar eru Guðrún Vilmundardóttir og Baldur Hrafn Vilmundarson.