Ekki ferðast milli landshluta

Andrésar andar leikunum hefur verið aflýst.
Andrésar andar leikunum hefur verið aflýst. Vefur Hlíðarfjalls

Ákveðið var síðdegis í gær að aflýsa Andrésar andar-leikunum sem áttu að hefjast í Hlíðarfjalli á morgun. Almannavarnir hafa biðlað til almennings að halda mannamótum í lágmarki og ferðast ekki á milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til.

Á vef Hlíðarfjalls segir að undanfarna daga og allt fram á síðustu stundu hafi framkvæmdanefnd leikanna leitað leiða í samráði við sóttvarnaryfirvöld, heilbrigðisráðuneytið, Almannavarnir, bæjaryfirvöld, ÍSÍ, SKÍ og SKA til að hægt verði að halda leikunum til streitu í samræmi við gildandi reglur.

Síðdegis í gær breyttust aðstæður þar sem almannavarnir og sóttvarnalæknir lögðust gegn því að leikarnir yrðu haldnir þar sem það felur í sér of mikla hættu á smiti miðað við það ástand sem ríkir í landinu.

Búast við fjölgun smita

Nú er staðan orðin þannig að fólki sem greinist smitað af Covid-19 hefur fjölgað hratt undanfarna daga. Það er áhyggjuefni og munu næstu dagar segja mikið til um framhaldið hér á landi að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum. 

Í tilkynningu á covid.is í gær kemur fram að tölur síðastliðinna daga gera það að verkum að margir velta fyrir sér næstu skrefum í samkomutakmörkunum og ekki sé ekki ólíklegt að fleiri smit bætist við á næstu dögum.

Allir á heimili þurfa að fara í sóttkví

Reglur um sóttkví kveða á um að allir sem dvelja á sama heimili þurfi að vera í sóttkví ef einn er í sóttkví. Þannig er ekki lengur heimilt að einhver dvelji í sínu herbergi í sóttkví og aðrir á heimilinu fara út.

„Nú er mikilvægt að við bregðumst öll við af krafti þannig að ekki komi til frekari útbreiðslu á næstunni. Því ráðleggja almannavarnir og sóttvarnalæknir öllum að forðast mannmarga staði, halda mannamótum í lágmarki og ekki ferðast á milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til.

Næstu dagar munu skera úr um hvort við erum að fá umfangsmeira hópsmit eða jafnvel útbreitt samfélagslegt smit. Því er mikilvægt að fara mjög varlega,“ segir á covid.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert