Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðu um frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga að fá rök væru fyrir hörðum sóttvarnaaðgerðum vegna þess hve vel gengur að bólusetja fyrir Covid-19 hér á landi og að nýgengi smita á landamærunum sé lágt.
Fyrsta umræða frumvarpsins kláraðist nú fyrir skömmu á Alþingi, vonir standa til að málið verði klárað í kvöld eða í nótt.
„Þetta var ánægjuleg tilkynning og hefði átt að liggja fyrir miklu fyrr að mínu viti enda hefur það blasað við frá upphafi faraldursins að þegar búið er að bólusetja að minnsta kosti viðkvæmustu hópanna hér á landi, þá hópa sem þessi veira herjar mest á með skaðlegum hætti, eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, þegar þessir hópar hafa verið bólusettir standa fá rök til þess að halda uppi hörðum sóttvarnaaðgerðum eins og við þekkjum þær núna.“
Máli sínu til stuðnings vísar Sigríður til þess að í janúar hafi nýgengi smita á landamærunum verið um fjórfalt á við í dag og þá höfðu fáir verið bólusettir. Spurði hún því hvers vegna málið hafi ekki verið lagt fram þá, þegar frekar þurfti.
„Stærstur hluti viðkvæmra hópa hér á landi er nú bólusettur, og stór hluti alveg að fullu,“ sagði Sigríður.
„Okkur hér á Íslandi hefur gengið í rauninni best í okkar viðureign við þessa kórónaveiru þegar við höfum höfðað til almennrar skynsemi og samstarfsvilja almennings um það að halda veirunni niðri,“ sagði Sigríður Á. Andersen. Segist hún taka undir brýningu sóttvarnayfirvalda um persónubundnar sóttvarnir „sem okkur bar gæfa til að tileinka okkur strax í upphafi þessa veirufaraldurs“.