Tæplega 4.000 manns hafa undirritað áskorun til stjórnvalda um að allir sem til landsins koma verði skikkaðir í tvær skimanir með veru á sóttkvíarhóteli á milli skimana, líkt og á Nýja-Sjálandi. Stofnandi undirskriftasöfnunarinnar segir að kalli fólksins hafi alls ekki verið svarað með kynningu ríkisstjórnarinnar á hertum aðgerðum í gær. Sú kynning var, að hans mati, helst til þess gerð að sefa fólk.
Eins og áður hefur komið fram hefur ríkisstjórnin lagt til að farþegar sem koma frá þeim löndum þar sem nýgengi kórónuveirusmita er 750 á hverja 100 þúsund íbúa verði almennt skyldaðir á sóttkvíarhótel. Mögulegt verður að sækja um undanþágu. Frumvarp þessa efnis er nú tekið fyrir á Alþingi.
Guðbergur Egill Eyjólfsson, framkvæmdastjóri og eigandi dýragarðsins Daladýrðar, sem jafnframt kom undirskriftasöfnuninni af stað, telur að aðgerðirnar snerti mjög afmarkaðan hóp. Þá þykir honum það skjóta skökku við að ríkisstjórnin leggi fjármagn í markaðssetningu á ferðum til Íslands á sama tíma og hún segist ætla að herða aðgerðir á landamærum.
„Það sýnir eiginlega bara að þau eru eiginlega ekkert að meina með þessu,“ segir Guðbergur í samtali við mbl.is. „Ég held að það sé aðallega verið að reyna að sefa fólk.“
Guðbergur tekur fram að hann hafi verið mjög sammála þeim aðgerðum sem sóttvarnalæknir hafi lagt til innanlands og á landamærum fram til þessa.
„En ég skil ekki alveg af hverju hann sættir sig nú við að miðað sé við svo hátt miðvið í nýgengni smita. Orð hans virðast hafa minna vægi en þau höfðu áður í ákvörðunum stjórnvalda. Þá eru það ekki lengur sérfræðingar sem ráða ferðinni heldur er það pólitíkin,“ segir Guðbergur.
„Þetta er hægt hjá miklu stærri þjóðum,“ segir Guðbergur og vísar þar m.a. til Nýja-Sjálands.
„Það er í raun mjög lítið framlag til sóttvarna að loka sig af í fimm sólarhringa miðað við þá einangrun og kvöl og pínu sem til dæmis gamla fólkið okkar hefur þurft að ganga í gegnum. Við erum farin að hugsa þetta í einhverjum hagtölum en núna á síðustu þremur dögum hafa 70 manns smitast. Kannski veikjast einhverjir þrír eða fjórir þar og kannski jafna þeir sig bara aldrei. Við erum að tala um líf fólks. Við erum ekki bara að rífast um gengi krónunnar eins og oft áður, núna erum við að tala um lífið og lífsgæði.“
Á Nýja-Sjálandi er sóttkvíin á milli skimana lengri en hér á landi eða 14 dagar í stað fimm.
„Ég myndi alveg treysta sóttvarnaryfirvöldum til að meta það hvort sóttkvíin þyrfti að vera alveg svo löng en þannig er það á Nýja-Sjálandi og það virkar,“ segir Guðbergur.
„Þetta er sett svona fram vegna þess að ég er ekki sóttvarnasérfræðingur. Þarna er aðferð sem við vitum að hefur virkað. Þess vegna viljum við bara taka hana, vegna þess að það er mikið undir og það er eiginlega enginn tími til stefnu.“
Guðbergur rekur, eins og áður segir, húsdýragarð og starfar því í ferðaþjónustu. Vegna færri erlendra ferðamanna lokaði hann húsdýragarðinum fyrr í haust og opnaði nú í vor, þótt meginþorri þeirra sem heimsæki Daladýrð séu íslenskir ferðamenn. Guðbergur segist því hafa skilning á því að ferðaþjónustufyrirtæki tapi á hörðum aðgerðum á landamærum.
„Með því að hafa landamærin lokuð tapa margir. Ég á vini og kunningja sem reka ferðaþjónustufyrirtæki sem lifa á erlendum ferðamönnum. Ég finn sannarlega til með þeim. Ríkið þarf að styðja vel við þessa aðila til þess að koma þeim yfir skaflinn, við getum ekki tekið sénsinn á allri þjóðinni.“
Húsdýragarðurinn Daladýrð er staðsettur skammt frá Akureyri. Nú stefna nokkur fyrirtæki á Akureyri að því að skrifa undir sambærilega yfirlýsingu og þá sem Guðbergur setti upp. Þá er komin í loftið heimasíðan Veirulaustsumar.is í tengslum við undirskriftasöfnunina.