Sjónvarpsþátturinn Good Morning America á vegum bandarísku stöðvarinnar ABC News var með beina útsendingu frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall í morgun.
Í tengslum við útsendinguna var tekið viðtal við tvo af sérfræðingum Veðurstofunnar, þær Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár, og Melissu Anne Pfeffer, sérfræðing á sviði gasdreifingar, að því er segir á facebooksíðu Veðurstofunnar.
Þær eru hluti af stórum hópi sérfræðinga á Veðurstofunni og annarra vísindamanna sem hafa fylgst náið með virkninni á Reykjanesskaga.
Er þetta hluti af umfjöllun þáttarins Good morning America um jörðina, en á morgun er dagur jarðarinnar (e. earth day). Fyrra innslagið var undir yfirskriftinni „sérfræðingar flykkjast að sjaldséðu eldgosi á Íslandi“ og byrjar fréttamaðurinn Will Reeve á því að segja að ólíklegt sé að myndir eða orð geti lýst upplifuninni. Inn á milli þess sem Reeve talar í beinni útsendingu koma inn stutt viðtöl við sérfræðinga og útskýrt er af hverju eldgos verði á Íslandi. Á einum stað útskýrir Reeve að hann sé við öllu búinn upp á öryggi að gera, meðal annars með gasmæli og að staðan sé mjög góð þar sem hann stendur. Í miðri útsendingu byrjar reyndar mælirinn að pípa, en Reeve virðist ekki láta það slá sig út af laginu og felur mælinn fyrir aftan bak.
Í seinna innskotinu flýgur dróni yfir eldstöðvarnar og nær í beinni útsendingu mynd af því þegar hluti úr einum gígnum fellur saman og greinilegt er að Reeve er heillaður. Þá segir hann frá því að í nótt hafi hann vaknað við jarðskjálftann sem var á svæðinu. Þrátt fyrir það segir hann greinilegt að eldgosið sé nýr heitur reitur fyrir ferðamenn, en áður hafði komið fram í útsendingunni að bólusettir einstaklingar gætu ferðast til Íslands til að skoða gosið.