Jóhannesi Stefánssyni hafa verið veitt sjálfbærniverðlaun Gautaborgar fyrir uppljóstranir sínar um meint brot Samherja varðandi kvótaviðskipti í Namibíu.
Jóhannes fær um 15 milljónir króna í verðlaun og skipar sér sess meðal annarra verðlaunahafa, svo sem Kofi Annan, fyrrum aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Þema sjálfbærniverðlauna Gautaborgar þetta árið var andstaða gegn spillingu, sem er ein stærsta hindrun á vegi í átt að sjálfbærni á heimsvísu og snertir gjarnan mest þá sem eiga minnst, eins og segir í fréttatilkynningu.
Í fréttatilkynningunni segir jafnframt að Jóhannes hafi hætt störfum fyrir Samherja árið 2016 og í kjölfarið ljóstrað upp um meint spillingarbrot fyrirtækisins í Namibíu. Hann hafi mátt þola hótanir og jafnvel banatilræði vegna þessa og það sé hugrekki hans að þakka að upp komst um hin meintu brot.