Næsta eldgos á Reykjanesskaga verður ekki eins þægilegt og eldgosið í Geldingadölum. Ár eða áratugir eru í að næst gjósi á þessu landsvæði, að mati Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings.
„Það er næsta víst að næsta gos verður ekki eins þægilegt,“ segir Ármann. „Við vitum ekki hvenær en það er alveg klárt að Reykjanesið er komið af stað. Við munum fá önnur eldgos á Reykjanesi og á verri stöðum.“
Gæti það ekki verið eftir hundruð ára? „Nei, sá tímarammi er búinn.“
Spurður hvar hann telur að næst gæti gosið segir hann nokkuð víst að það verði í Krýsuvíkurkerfinu eða í Sundhnjúkakerfinu [Eldvörp-Svartsengi] en gosið núna er í Fagradalskerfi. Ansi mörg kerfi séu í raun orðin viðkvæm. Gosið myndi hafa áhrif á byggð, verksmiðjur, rafmagnslínur, vegi og fleiri mikilvæga innviði. „Nesið er eins og kóngulóarvefur hvað það varðar,“ segir Ármann um rafmagnslínurnar.
Hann og aðrir vísindamenn eru önnum kafnir við að rannsaka eldgosið í Geldingadölum til að vera betur undirbúnir fyrir frekari gos. „Við erum að spá í framtíðina og erum að reyna að ná í flæðistuðla út úr þessu hrauni,“ segir hann og á við eiginleika vökvans, hitastig, kristöllun og breytingar á seigju frá upptökum gossins. Skoðað er hversu mikið gasið tekur þátt í suðunni í gígunum. „Við erum að reyna að læra sem mest áður en það koma næstu gos á Reykjanesinu, til að vera betur undir þau búin.“
Þannig geta vísindamenn undirbúið hermilíkön til að eiga betri möguleika á að spá fyrir um hvert næstu hraun stefna og fá um leið betri viðbragðstíma þegar næsta gos verður. „Það þýðir ekki alltaf að standa hjá og hreyfa ekki lið. Nesið er þannig í dag að við verðum að gera eitthvað,“ segir Ármann.
Hann segir gosið í Geldingadölum vera mjög stöðugt og rólegt og það fari sínu fram. Hann segir gosið aðgengilegt og auðvelt við að eiga að mörgu leyti. Gott sé að læra af því. Eldgosið í Holuhrauni hafi aftur á móti verið gífurlega stórt og erfitt að eiga við. „Menn verða að nota tækifærið þegar menn fá svona þægilegt gos í hendurnar að læra sem mest af því,“ greinir hann frá.
Ármann er einn af ábyrgðarmönnum eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands, sem birti færslu í byrjun mánaðarins um fyrsta marktæka gjóskufallið í eldgosinu í Geldingadölum.
Hann segir að í eldgosum sem þessu sé mjög lítið gjóskufjall. Gasið sé lítið í kvikunni og hún sullist meira upp eins og vökvi. Gjóskufallið sé vissulega eitthvað en aðallega séu merki þess í kringum gígana. „Smæstu kornin fara lengra. Það þarf að leita að þeim en þau eru þar,“ segir hann en tekur fram að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þeim.
Hraun hefur verið að teygja sig í austurátt frá Geldingadölum yfir í Meradali. Magnið er aftur á móti það lítið að það þokast nánast ekkert áfram og kemst ekki yfir haftið, segir Ármann. Spurður hvort það nái yfir í Meradali segir hann að það muni einhvern tímann gerast ef gosið haldi áfram endalaust.