Framboð bóluefna gegn Covid-19 er að aukast þessa dagana. Í gær barst niðurstaða frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) þess efnis að hægt verði að nota bóluefni Janssen, sem hafði verið til skoðunar vegna mögulegra tengsla bóluefnisins við sjaldgæfa tegund blóðtappa.
Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur smitsjúkdómalæknis á upplýsingafundi almannavarna. Hún býst við að bóluefni Janssen verði notað í næstu viku.
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur fundið möguleg tengsl milli bóluefnis Janssen og mjög sjaldgæfrar tegundar blóðtappa sem urðu til þess að yfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum gerðu hlé á bólusetningum við Covid-19 með bóluefninu í síðustu viku.
Lyfjastofnunin sagði í yfirlýsingu í gær að öryggisnefnd hennar hefði komist að þeirri niðurstöðu að bæta ætti viðvörun við upplýsingar um bóluefnið sem framleitt er af Johnson & Johnson en bætti þó við að ávinningur af bóluefninu væri meiri en áhætta þess.