Ríkisútvarpið tapaði 209 milljónum króna eftir skatta á árinu 2020 vegna kórónuveirunnar og er það í fyrsta sinn síðan árið 2014 sem stofnunin er rekin með tapi. Heildareignir í árslok námu 8,34 milljörðum króna, eigið fé 1,9 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 23,1%.
Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins lækkuðu milli ára um tæplega 200 milljónir og segir í fréttatilkynningu að raunlækkun sé því töluverð. Þá segir að möguleikar Ríkisútvarpsins til að afla auglýsingatekna hafi verið takmarkaðir á undanförnum árum og auglýsingamarkaðurinn sé almennt að breytast.
„Ríkisútvarpið á ríkt erindi við þjóðina og sinnir á hverjum degi mikilvægu hlutverki í þágu landsmanna allra. Þetta var undirstrikað með skýrum hætti á því fordæmalausa ári 2020,“ er haft eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra í fréttatilkynningu, en þetta sagði hann á aðalfundi Ríkisútvarpsins, sem fram fór í dag.
Í fréttatilkynningunni segir einnig að kannanir Gallup sýni að 70% landsmanna noti miðla Ríkisútvarpsins daglega og 92% landsmanna segjast gera það vikulega. Þá eru 72% landsmanna ánægð með Ríkisútvarpið.
Einnig segir að stefnu- og áherslubreytingar á síðustu fimm árum hafi haft í för með sér að framboð á íslensku efni jókst um 66% og norrænu efni um 112% en að samdráttur hafi orðið í framboði á bandarísku efni um 42%.