Sex stórmeistarar keppa á Íslandsmóti

Íslandsmót í skák árið 2021 fer fram dagana 22.-30. apríl.
Íslandsmót í skák árið 2021 fer fram dagana 22.-30. apríl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sex stórmeistarar í skák munu taka þátt í landsliðsflokki á Íslandsmótinu í skák árið 2021. Mótið fer fram í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis, á Kársnesinu í Kópavogi, dagana 22.-30. apríl.

Um er að ræða eitt allra sterkasta Íslandsmót sögunnar að því er fram kemur í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands. Mótið er samvinnuverkefni Skáksambandsins og skákdeildar Breiðabliks. 

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, mun setja mótið á morgun, fimmtudag, og leika fyrsta leik þess. Teflt verður daglega og hefst taflmennskan kl. 15 alla daga mótsins.

Meðal keppenda eru Hjörvar Steinn Grétarsson, sem nýlega sigraði í Íslandsbikarnum og ávann sér keppnisrétt á heimsbikarmótinu í skák, og Guðmundur Kjartansson, sem fyrir skemmstu varð fimmtándi stórmeistari Íslendinga.

Þá munu Hannes Hlífar Stefánsson, þrettánfaldur Íslandsmeistari í skák, og Jóhann Hjartarson, einnig margfaldur Íslandsmeistari, taka þátt í mótinu. 

Helgi Áss Grétarsson, Íslandsmeistari árið 2018 og stórmeistari, og Bragi Þorfinnsson stórmeistari fylla svo flokk stórmeistaranna.

Keppendalistinn (skákstig í sviga) 

1.      Hjörvar Steinn Grétarsson (2588) – stórmeistari í skák

2.      Hannes Hlífar Stefánsson (2532) – stórmeistari í skák

3.      Jóhann Hjartarson (2523) – stórmeistari í skák

4.      Guðmundur Kjartansson (2503) – stórmeistari í skák

5.      Helgi Áss Grétarsson (2437) – stórmeistari í skák

6.      Bragi Þorfinnsson (2432) – stórmeistari í skák

7.      Björn Þorfinnsson (2384) – alþjóðlegur meistari

8.      Sigurbjörn Björnsson (2327) – FIDE-meistari

9.      Vignir Vatnar Stefánsson (2327) – FIDE-meistari

10.    Alexander Oliver Mai (2025)

Vegna sóttvarnareglna geta áhorfendur ekki mætt á skákstað. Leikir verða sendir beint út, finna má upplýsingar um útsendingar á skak.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert