Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út í ábatann af því að „taka í fangið þrjár bylgjur af þessum andstyggðarfaraldri með öllum þeim hörmungum sem hafa fylgt í kjölfarið“.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi spurði hún hvernig sé hægt að réttlæta meðalhóf þegar stór hluti þjóðarinnar hafi verið hnepptur í fjötra síðan faraldurinn hófst. Nú sé tímabært að sjá kostnaðinn af því að standa í landamæraskimunum og öðrum aðgerðum sem miði við að „taka á móti örfáum ferðamönnum sem eiga að bjarga 10% hagkerfisins sem í raun og veru mega og eiga að vera á ís fyrir þau tæplega 90% sem við höfum getað haldið gangandi sjálf“.
Bjarni sagði að nær væri að tala um hversu mikla vernd yfirvöld hafi náð að byggja upp fyrir líf og heilsu fólks með aðgerðunum sem gripið hafi verið til. Eftir því hafi verið tekið hvernig til hefur tekist hér á landi.
„Eitt af því sem við skulum muna í þessu sambandi er að þegar við fórum í fyrstu aðgerðir okkar lá ekkert fyrir um það hvort bóluefni kæmi yfirhöfuð. Menn höfðu spáð því að það gæti mögulega gerst seint á árinu 2021. En eftir því sem tíminn hefur liðið þá hefur ýmislegt fallið með okkur, t.d. það að menn skyldu hafa unnið það kraftaverk að framleiða bóluefni sem geta komið að gagni á skömmum tíma,“ sagði Bjarni.
Inga kallaði aðgerðir ríkisstjórnarinnar fúsk og vitnaði þar í viðmælanda þáttarins Silfrið á RÚV. Bjarni vísaði því á bug og sagði fáa vera í liði með henni í þeim efnum. Árangurinn tali sínu máli. Innlögnum á gjörgæslu hafi verið haldið í algjöru lágmarki í langan tíma og einkaneysla hafi verið umfram spár. Bjartsýni ríki jafnframt í atvinnulífinu. „Það er að fara að birta til og engin ástæða til að fara á taugum á lokametrunum,“ sagði hann.