Sumarstörfum fjölgað fyrir 17 og 18 ára

Borgarráð hefur samþykkt að fjölga þeim einstaklingum um 750 sem fá sumarstörf  hjá borginni. Þetta er gert til að koma sérstaklega til móts við sautján og átján ára ungmenni. Með þessum breytingum verða yfir 1.700 sumarstörf í boði hjá borginni í sumar.

Fimm hundruð ný sumarstörf verða í boði fyrir námsmenn 18 ára og eldri og ráðningartímabilið hjá hverjum og einum verður allt að tíu vikur, að því er segir í tilkynningu.

Áætlaður heildarkostnaður Reykjavíkurborgar þegar búið er að reikna mótframlag frá ríki verður 131 milljón króna. Þetta er sambærileg aðgerð og ráðist var í síðasta sumar. Unnið er að undirbúningi starfanna í samvinnu við Vinnumálastofnun og verður tilkynnt þegar störfin verða auglýst á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

278 milljóna kostnaður

Sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga verða 250 og ráðningartímabilið hjá hverjum og einum verður sex vikur. Kostnaður vegna starfanna verður 147 milljónir króna. Gripið er til þessara aðgerða því talið er að þessi aldurshópur, sem enn telst til barna samkvæmt lögum, muni eiga erfitt með að finna sumarstörf vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Reykjavíkurborg hefur nú þegar auglýst sumarstörf og áætlað er að ráða 994 einstaklinga í þau. Þar af eru 115 sem munu starfa hjá íþróttafélögum og æskulýðssamtökum í samvinnu við íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar.

Með fjölgun sumarstarfa um 750 nær borgin til fleiri ungmenna sem bæði munu starfa við hefðbundin sumarstörf en einnig verða í boði óhefðbundin og skapandi átaksstörf.

Samanlagður kostnaður vegna fjölgunar á stöðugildum fyrir ungmenni í sumar verður 278 milljónir króna.

4.066 umsóknir

Reykjavíkurborg auglýsti fjölbreytt sumarstörf og sumarafleysingar í febrúar sl. og eru ráðningar í gangi á starfsstöðvum borgarinnar. Þegar hafa borist 4.066 umsóknir um sumarstörf hjá Reykjavíkurborg og enn er hægt að sækja um nokkur störf.

Fjölgun sumarstarfa nú er hluti af viðspyrnuaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna Covid-19 en borgin hefur ráðist í markvissar vinnumarkaðsaðgerðir vegna ástandsins. Að sögn Auðar Björgvinsdóttur, skrifstofustjóra á Skrifstofu ráðninga og mönnunar, var almenn ánægja með sambærilegar aðgerðir hjá starfsstöðvum Reykjavíkurborgar síðasta sumar.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert