Kórónuveirufaraldurinn hefur kostað ríkissjóð Íslands um 200 milljarða króna í beinum aðgerðum og líklega annað eins í óbeinum aðgerðum.
Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við spurningu Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.
Bjarni sagði þetta vera tjónið hingað til, eða á bilinu 300 til 400 milljarðar króna eftir því hvernig horft er á hlutina. „Ég held að það hafi enginn getað komið í veg fyrir það,“ sagði hann um tjónið. Það hafi verið óumflýjanlegt að verulegu leyti. „Okkur hefur tekist með aðgerðum að draga verulega úr því,“ sagði ráðherrann.
Bjarni tók fram að Íslendingar hafi verið leiðandi á heimsvísu á margan hátt í viðbrögðum við faraldrinum, meðal annars varðandi tvöfalda skimun og smitrakningu. „Við höfum á suma vegu verið í ákveðnu brautryðjendastarfi í aðgerðum okkar.“