Alþingi hefur opnað nýjan ungmennavef á slóðinni www.ungmennavefur.is, þar sem notendum gefst kostur á að fletta upp hugtökum, sjá hvernig frumvörp verða að lögum með myndrænum hætti og kynna sér betur sögu Alþingis.
Á söguás sem nálgast má á síðunni er stiklað á helstu tímamótum í sögu Alþingis og raktar mikilvægustu breytingar sem orðið hafa á Alþingi og umhverfi þess frá stofnun til samtíma.
Sögu Alþingishússins og Alþingisgarðsins eru einnig gerð skil og bent er á ýmsar leiðir til að fylgjast með störfum Alþingis og hafa áhrif á gang mála en loks eru á vefnum þrautir og verkefni fyrir nemendur til að spreyta sig á, til stuðnings við kennslu í samfélagsfræði, sögu og stjórnmálafræði.