230 þeirra 320 herbergja sem í boði eru á sóttkvíarhótelinu sem rekið er á Fosshóteli Reykjavík eru upptekin. Þá eru herbergin í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg mörg hver einnig upptekin. Forstöðumaður sóttvarnahúsa segir ekki ólíklegt að opna þurfi fleiri sóttkvíarhótel ef sóttvarnafrumvarp sem rennir lagastoð undir það að skylda ákveðinn hóp á sóttkvíarhótel við komuna til landsins nær fram að ganga.
Eins og áður hefur komið fram hefur ríkisstjórnin lagt til að farþegar sem koma frá þeim löndum þar sem nýgengi kórónuveirusmita er 750 á hverja 100 þúsund íbúa verði almennt skyldaðir á sóttkvíarhótel. Mögulegt verður að sækja um undanþágu.
Verður ekkert mál fyrir ykkur að bregðast við því ef fólk verður aftur skyldað í sóttvarnahús?
„Ég geri ekki ráð fyrir því. Það eru Sjúkratryggingar Íslands sem sjá um að útvega okkur það húsnæði sem þarf. Það sem við [Rauði krossinn] sjáum um er að tryggja sóttvarnir, útvega staff og reka húsin. Við rennum svolítið blint í sjóinn, við vitum ekki hvað þetta er margt fólk sem kemur, við erum nú þegar með þrjú hús í rekstri og það gengur bara vel,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa.
Upphaflega var Fosshótel Reykjavík leigt í mánuð en þar sem þar eru nú þegar margir gestir, hver einn og einasti af fúsum og frjálsum vilja, gerir Gylfi ráð fyrir að leigusamningurinn verði framlengdur.
„Við erum náttúrlega með þessa framkvæmd í gangi sem byrjaði síðast og hér eru 90 herbergi eftir af 320 á [Foss-]Hótel Reykjavík. Síðan erum við náttúrlega með farsóttarhúsið á Rauðarárstíg þar sem við erum aðallega með sýkta. Þar er þétt setinn bekkurinn líka. Þetta verður ekkert stórmál ef við þurfum að taka þetta að okkur nema þá bara að við þurfum hugsanlega að fjölga starfsfólki enn meira. Það er nokkuð sem við ættum að geta ráðið við,“ segir Gylfi.
Sóttkvíarhótelið var opnað fyrir tæpum mánuði. Gylfi segir að margir hafi sýnt áhuga á að dvelja þar síðan það var opnað.
„Það má eiginlega segja það. Það er hins vegar alltaf best fyrir fólk að vera heima hjá sér ef það getur mögulega gert það. Þessi úrræði eru hugsuð fyrir þá sem ekki hafa heimilisfesti á Íslandi eða geta ekki verið heima hjá sér af einhverjum ástæðum. Við getum til dæmis ekki tryggt fólki sömu útivist og það fær heima hjá sér.“
Gylfi segir að lokum að samstarfið við Sjúkratryggingar Íslands hafi gengið mjög vel og hann hafi enga trú á öðru en að stofnunin muni bregðast hratt við og útvega meira húsnæði ef þess þarf.