Þingflokkur Flokks fólksins mun í dag leggja fram breytingatillögur á Alþingi við framlagt frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á sóttvarnalögum þess efnis að allir ferðamenn skuli dvelja í sóttvarnahúsi eigi skemur en í sjö daga frá komu til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum.
Í breytingatillögunni sem Flokkur fólksins mun leggja fram eftir fyrstu umræðu frumvarpsins, verður lagt til að ferðamenn muni sjálfir bera kostnaðinn af dvölinni í sóttvarnahúsi. Þá verði sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu sýni ferðamaður fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Beiðni um slíka undanþágu skal liggja fyrir með tveggja daga fyrirvara.
Þá er lagt til að ferðamaður með slíka undanþágu skuli sæta eftirliti eins og um sóttvarnahús á vegum stjórnvalda væri að ræða og á eigin kostnað.