Vottorð um smit og bólusetningu virðast áreiðanleg

Frá Leifsstöð. Farþegar geta þar framvísað vottorði um bólusetningu eða …
Frá Leifsstöð. Farþegar geta þar framvísað vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu til þess að sleppa við sóttkví við komuna til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vottorð sem komufarþegar hafa framvísað á landamærum Íslands um bólusetningu gegn Covid-19, fyrra kórónuveirusmit eða mótefni gegn Covid-19, virðast áreiðanleg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

„Frá 1. apríl hefur komufarþegum með slík vottorð verið gert að fara í eina sýnatöku til að kanna hvort þeir kunni að bera COVID-19-smit. Á tímabilinu 1. – 15. apríl voru 1.106 farþegar sem framvísuðu vottorðum. Af þeim greindust 5 jákvæðir við sýnatöku en við nánari skoðun hjá COVID-göngudeild Landspítala kom í ljós að enginn þeirra var með virkt smit,“ segir í tilkynningunni. 

Þar kemur fram að alls hafi 4.800 ferðamenn komið til landsins á tímabilinu 1. – 15. apríl og af þeim framvísuðu 1.106 einstaklingar bólusetningarvottorði, vottorði um fyrra smit eða vottorði sem staðfestir mótefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert