Þörf er á fleiri golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum til að anna eftirspurn. Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, áætlar að nýjan 18 holu golfvöll þurfi á sjö ára fresti til að anna eftirspurn.
Agnar segir brýnt að golfklúbbar og sveitarfélög hugi að frekari mannvirkjagerð og hefjast verði handa sem allra fyrst, annars stefni í óefni og nýliðun í íþróttinni verði þrautin þyngri. Hann áætlar að um þúsund manns séu nú á biðlistum eftir aðild að golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu.
Á síðustu árum hefur gróska verið í golfinu og iðkendum fjölgað hratt, en eftir að kórónufaraldurinn skall á fyrir rúmu ári hefur orðið sprenging í íþróttinni, að sögn Agnars. Skýringarnar segir hann m.a. öflugt unglingastarf, rúman tíma fólks í faraldrinum og að færri leiki golf í útlöndum þessa mánuðina. Hann segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að golf sé á margan hátt sniðið að sóttvörnum þar sem aðgangi að útiveru sé stýrt, aldrei séu fleiri en fjórir í hópi og auðvelt að halda nauðsynlegri fjarlægð.