Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur nú gert byggingarreglugerð aðgengilega á vefnum byggingarreglugerd.is. Þar má fletta upp í reglugerðinni, sem áður var aðeins tiltæk á PDF-formi, og nálgast nánari upplýsingar og orðskýringar.
Nú er því hægt að fletta upp á einfaldan hátt í þeim reglum sem gilda um framkvæmdir, leyfi, hönnunargögn og úttektir, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er hægt að skoða allar breytingar sem gerðar hafa verið á byggingarreglugerðinni síðan hún tók fyrst gildi og fylgja leiðbeiningar með þar sem finna má nánari skýringar, túlkun eða tæknilegar útfærslur.
Í tilkynningu frá HMS segir meðal annars:
„Undanfarið hefur verið mikið um að fólk vilji ráðast í breytingar og ýmsar framkvæmdir á fasteignum og er tilvalið fyrir einstaklinga í framkvæmdahug að glugga í byggingarreglugerð, t.d. til að fá á hreint í hvaða tilvikum þarf ekki að sækja um byggingarleyfi.
Sem dæmi má nefna að samkvæmt breytingu sem gerð var fyrir nokkrum árum þarf ekki lengur að sækja um byggingarleyfi til að byggja allt að 40 fm hús á lóð. Þetta getur t.d. verið nokkuð veglegt gestahús, bílskúr eða vinnustofa. Er slík framkvæmd aðeins tilkynningarskyld.“