Engar umsóknir bárust frá útgerðum íslenskra skipa um leyfi til að veiða Austur-Atlantshafs-bláuggatúnfisk á þessu ári, en umsóknarfrestur rann út 15. apríl.
Heimildir íslenskra skipa til veiða á túnfiski hafa aukist síðustu ár og er kvóti Íslendinga í ár 225 tonn, en til samanburðar var hann tæplega 44 tonn 2016, samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Íslensk skip hafa ekki stundað beinar veiðar á túnfiski síðustu ár, en árin 2014-2016 sótti Jóhanna Gísladóttir GK, skip Vísis hf. í Grindavík, á túnfiskmið djúpt suður af landinu. 2014 veiddi skipið 122 fiska eða 22,2 tonn úr sjó, 2015 veiddust 155 fiskar eða 27 tonn og 2016 veiddust 17 fiskar eða 3,1 tonn. Nokkrir túnfiskar komu sem meðafli á makrílveiðum í fyrra og heldur fleiri árin 2015-2017. áij@mbl.is