Frá miðnætti til hádegis eru engir viðbragðsaðilar á gosstöðvunum á Reykjanesskaga til að mæla gasmengun og bregðast við óhöppum, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að gossvæðið sé hættulegt, ekki síst vegna lélegra loftgæða, og það sé ekki fyrir ung börn.
Í tilkynningunni er sömuleiðis vakin athygli á því að bannað sé að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skuli bílum á skipulögðum stæðum á grasflötum við veginn en aðkoma að bílastæðum er bæði úr austri og vestri.
„Áætla má að gangan taki 3-4 klst. fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg. Hafið síma fullhlaðna. Verið með höfuðljós/vasaljós og auka rafhlöður í kvöldgöngu,“ segir í tilkynningunni.
Þar er börnum, öldruðum, barnshafandi konum og þeim sem hafa undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt frá því að fara á gosstöðvarnar ef einhver loftmengun er yfirvofandi.
„Einnig getur verið yfirborðsmengun í jarðvegi, snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors (F). Yfirborðsmengun er mest í næsta nágrenni við gosstöðina. Vegna loftmengunar er ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar,“ segir í tilkynningunni.
Gasmengun berst til norðvesturs í dag og gæti orðið vart við hana í byggð frá Vogum, í Reykjanesbæ og allt til Hafna. Í fyrrnefndri tilkynningu kemur eftirfarandi fram um gasmengun:
Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá almannavörnum.
Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.
Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.
Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru berskjaldaðri fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.