Héraðsdómur hefur fallist á framlengingu á greiðsluskjóli eignarhalds- og rekstrarfélaga Hótel Sögu, það er að segja Bændahallarinnar ehf. og Hótel Sögu ehf. Fulltrúar fyrirtækjanna og Bændasamtaka Íslands eru í viðræðum við ríkið og Háskóla Íslands um kaup á húsinu fyrir starfsemi háskólans.
Greiðsluskjólið er til 7. júlí næstkomandi. Þá verður liðið eitt ár frá því það fyrst fékkst og ekki eru möguleikar á frekari framlengingu, samkvæmt þeim lögum sem nú gilda um þetta úrræði.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og umsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækjanna, segir að viðræður við ríkið og Háskóla Íslands gangi ágætlega og kveðst hann vongóður um að þær skili árangri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.