Mikið hefur mætt á björgunarsveitum undanfarið vegna eldgossins í Geldingadölum, en um níu þúsund vinnustundir hafa farið í verkefni því tengd síðan fór að gjósa.
Það þýðir aðeins eitt: konurnar í Slysavarnafélaginu Þórkötlu í Grindavík hafa einnig staðið í ströngu. Það væri enda ekkert björgunarsveitarfólk reiðbúið til að manna vaktir við gosstöðvarnar ef ekki væri fyrir félaga Þórkötlu, sem sjá til þess að allir fari saddir og sælir að sinna þeim verkefnum sem ráðast þarf í.
„Við höfum náttúrlega aðallega verið að gefa öllum viðbragðsaðilum að borða og passa að allir séu vel nærðir og svona. Það hefur svona verið okkar helsta verkefni í kringum þetta gos,“ segir Guðrún Kristín Einarsdóttir, formaður Þórkötlu, við mbl.is.
Slysavarnafélagið Þórkatla var stofnað árið 1977 í Grindavík og er því 44 ára gamalt í ár. Í félaginu eru 158 félagskonur og segir Guðrún að félagið hafi alla tíð verið stórt og öflugt. Þær hafa staðið vaktina frá því fór að gjósa en eftir að viðbragð er orðið minna á gosstöðvunum að undanförnu hefur gefist frí til að kasta mæðinni.
„Já, við höfum fengið að fara og skoða gosið,“ segir Guðrún aðspurð. „Við fengum okkur frí í einn dag og skoðuðum gosið. Það komu hérna konur úr deildunum í Keflavík og Garðinum og leystu okkur af, þannig að þá fengum við frí og fórum að skoða gosið.“
Björgunarsveitir hafa þurft að manna vaktir við gosstöðvarnar í mánuð núna og því er aðeins hægt að ímynda sér allan þann mat sem þarf að elda og smyrja ofan í mannskapinn. Konurnar í Þórkötlu njóta þó aðstoðar ýmissa aðila við þá áskorun eins og Guðrún lýsir.
„Við höfum fengið rosalega mikinn stuðning frá fyrirtækjum sem og einstaklingum hérna í Grindavík, svo líka frá fyrirtækjum í Keflavík og Reykjavík. Það er bara alls konar matur og bakkelsi, svo höfum við verið að fá alls konar eldaðan mat til okkar sem aðeins þarf þá að hita.
Þetta hefði auðvitað ekkert gengið ef við hefðum ekki haft neina aðstoð. Við hefðum ekkert getað verið að standa í því að elda ofan í liðið allan daginn. Þannig að sem betur fer risu allir upp og studdu við bakið á okkur, sem er alveg frábært og við erum svakalega þakklátar fyrir það.“
Margir kannast við þá stemningu sem myndast meðal fólks þegar tiltölulega hættulaus náttúruvá steðjar að. Guðrún og hinar konurnar í Þórkötlu kannast sannarlega við það og segja að stemningin hafi verið góð síðan fór að gjósa, þrátt fyrir að mikið hafi verið að gera.
„Þetta er búið að vera svakalega gaman, það er búið að vera rosa góð stemning. Og við höfum fengið að heyra það, margir að segja að það hafi verið tekið svo vel á móti þeim, gaman að koma. Og í kringum allt okkar starf hefur verið rosalega góð stemning, þetta eru allt svo hressar konur sem eru í þessu félagi,“ segir Guðrún og hlær.
Upp á það geta enda margir kvittað, þar á meðal forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem sló á þráðinn til Guðrúnar á dögunum og þakkaði henni fyrir störf félagsins í almannaþágu, eftir að gos hófst í Geldingadölum.
Þetta var tilkynnt á facebooksíðu Þórkötlu þar sem segir að bréf, sem Guðni sendi í kjölfarið, verði rammað inn hið snarasta og hengt upp í björgunarsveitarhúsinu í Grindavík.