Tveir úr stjórn Íslandspósts töldu brýnt að gjaldskrárlækkun sem gripið var til í janúar 2020 yrði dregin til baka og lögð fram að nýju fyrir stjórn, þar sem hún hefði verið andstæð lögum um póstþjónustu. Meirihluti stjórnar bókaði þvert á móti að með gjaldskrárlækkuninni hefði verið brugðist við lögbundinni kröfu um sömu gjaldskrá innan alþjónustu um allt land.
Var bókun þessa efnis lögð fram á stjórnarfundi Póstsins sem haldinn var 18. desember 2020. Í fundargerðinni, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, kemur fram að Eiríkur H. Hauksson og Thomas Möller telji að gjaldskrárlækkun sem ráðist var í um áramótin 2019/2020 hafi verið niðurgreidd ríkisstarfsemi og aðför að starfsemi þeirra fyrirtækja á landsbyggðinni sem boðið hafa upp á sambærilega þjónustu árum saman í flutningum og verslun.
Í bókun Eiríks og Thomasar segir meðal annars:
„Það liggur fyrir að umtalsverð gjaldskrárlækkun á pakkasendingum innanlands sem tók gildi í byrjun janúar 2020 var ákveðin án umfjöllunar í stjórn og án heimildar stjórnar Íslandspósts eins og kveðið er á um í samþykktum félagsins. Ofangreind gjaldskrárlækkun frá janúar 2020 hefur leitt til mjög mikils tekjutaps hjá Íslandspósti á árinu 2020 og valdið röskun á samkeppnisstöðu einkarekinna fyrirtækja í innanlandsflutningum og smávöruverslun á landsbyggðinni.“
Ekki kvað við sama tón hjá meirihluta stjórnar, þar á meðal formanni, sem taldi að með gjaldskrárbreytingunni hefði á lögmætan hátt verið brugðist við kröfu 2. mgr. 17. gr. póstlaga um að sama gjaldskrá gilti innan alþjónustu um allt land. Kom sú bókun frá Bjarna Jónssyni, formanni stjórnar, Auði Björk Guðmundsdóttur og Jónínu Björk Óskarsdóttur.
Í janúar 2020 hóf Íslandspóstur að miða við eitt gjaldsvæði í stað fjögurra í innlendum pakkasendingum upp að 10 kg, sem hafði í för með sér að verð lækkaði mikið.
Birgir Jónsson var framkvæmdastjóri Póstsins þegar breytingarnar voru gerðar og hefur stjórn félagsins gagnrýnt hann fyrir að hafa ekki borið lækkunina undir stjórn.
Í stjórnarfundargerð Íslandspósts frá nóvember 2019 kom fram að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði fallist á að ríkissjóður bætti fyrirtækinu alþjónustubyrði vegna ársins 2020 að fjárhæð 490 milljónir króna.
Var það tilkomið vegna ákvæðis í nýjum lögum um póstþjónustu sem kveður á um að sama verð skuli vera á alþjónustu um allt land en verð víða á landsbyggðinni var þá lækkað niður í verð sem gilti á höfuðborgarsvæðinu.