Sveitarfélagið Árborg fékk 8.895 umsóknir um 52 lóðir sem auglýstar voru í öðrum áfanga nýs hverfis, Björkurstykkis, á Selfossi. Um 120 íbúðir verða á þessum lóðum.
Ásókn í lóðir á Selfossi er meiri en nokkru sinni og útlit fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg, segir í Morgublaðinu í dag að einstaklingar og fyrirtæki sæki um lóðirnar. Hann telur að einhver byggingarfyrirtæki hafi sótt um allar lóðirnar á nokkrum kennitölum en tekur fram að það breyti ekki heildarmyndinni. Eftirspurnin sé mikil.
„Sem betur fer höfum við byggt upp rafrænt ferli fyrir umsóknir og útdrátt,“ segir Gísli Halldór og bendir á að það auðveldi mjög úrvinnsluna. Í byrjun maí verður varpað hlutkesti um það hvaða umsækjendur fái þessar eftirsóttu lóðir. Það er gert í excelskjali og hefur fulltrúi sýslumanns eftirlit með því.