Tvær vikur tekur að fá vörn gegn kórónuveirunni eftir fyrsta skammt bóluefnis og því þarf að hliðra áætlun stjórnvalda um tilslakanir innanlands í samræmi við það, að sögn Jóhönnu Jakobsdóttur, lektors í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Þetta segir hún á twitter-síðu sinni þar sem hún segir einnig að vegna þess að bólusett er eftir aldursröð hér á landi, verði hjarðónæsmiþröskuldi ekki náð þegar 65% landsmanna hafa fengið einn skammt bóluefna. Það sé vegna þess að hjarðónæmi verður að hluta til ekki jafndreift og þarf til þess að hjarðónæmi fáist.
Jóhanna segir einnig að ekki hafi enn verið tekið tillit til barna í áætlun um bólusetningar, þegar þau eru samþykkt, en bætir við að líklegt sé að bóluefni Pfizer verði samþykkt fyrir börn á aldrinum 12-15 ára í sumar.
Þá segir hún að litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu gangi skemur en Ísland ráði við, sérstaklega hvað varðar nýgengi í löndum sem merkt eru græn á korti stofnunarinnar. Að auki segir hún að nýtilkomin skilgreining íslenskra stjórnvalda á vínrauðum svæðum, hááhættusvæðum, sé of ströng og að miða þurfi við lægra nýgengi.
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háksóla Íslands og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu, vakti athygli á orðum Jöhönnu á facebook-síðu sinni og tekur undir það sem hún segir.
Ingileif segir að einn skammtur bóluefnis AstraZeneca hafi veitt 64% vernd gegn Covid-19 þremur vikum eftir bólusetningu í rannsókn sem gerð var á 12.600 þátttakendum. Þremur vikum til þremur mánuðum eftir bólusetningu hafi einn skammtur sama bóluefnis svo veitt 76% vernd í rannsókn með 18 þúsund þátttakendurm. Vegna þessa segir Ingileif að stjórnvöld verði að bíða í um mánuð í viðbót með fyrirætlanir sínar breytt fyrirkomulag á landamærum Íslands.