Á síðasta fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur var lagt fram minnisblað Teiknistofunnar Stiku dagsett 13. janúar 2021 varðandi staðsetningu þyrlustarfsemi Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.
Fyrir liggur bréf frá dómsmálaráðuneytinu dags. 10. júlí 2018 þar sem þess er farið á leit að skipulagsyfirvöld í Reykjavík móti tillögur um staðsetningu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á flugvallarsvæðinu til framtíðar.
Fram kemur í minnisblaði Stiku að í dag sé flugskýli Landhelgisgæslunnar staðsett við Nauthólsveg 68. Flugskýlið hýsir flugvél og þyrlur Gæslunnar, ásamt stoðrýmum (skrifstofum o.fl.) í smærri viðbyggingum.
Ef gert er ráð fyrir því að flugvöllurinn og aðstaða honum tengd færist á annan stað megi gera ráð fyrir því að flugskýli Landhelgisgæslunnar geri það líka. Þá myndi Landhelgisgæslan flytja alla sína starfsemi á þennan nýja stað, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.