„Þetta er svolítið kafkaísk staða“

Ferðamenn í skoðunarferð í Reykjavík á meðan enn voru erlendir …
Ferðamenn í skoðunarferð í Reykjavík á meðan enn voru erlendir ferðamenn á landinu. Þeir eru fáir nú til dags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lista- og leiðsögukona sem ákvað að skrá sig í nám á vorönn þegar lítið var um vinnu hefur nú rekist á veggi vegna átaks Vinnumálastofnunar, Hefjum störf. Hún bendir á að átakið geti orðið til þess að hæfustu einstaklingarnir séu ekki ráðnir þar sem frekar sé litið til styrkja sem fylgja fólki en hæfni þess.

Með átakinu greiðir Vinnumálastofnun bætur með starfsfólki sem hefur verið á atvinnuleysisbótum. 

Konan sem um ræðir heitir Nanna Gunnarsdóttir. Hún skráði sig í 25 einingar í Háskóla Íslands síðastliðið haust en áður hafði hún starfað sem verktaki í ferðaþjónustunni og verið með tilfallandi verkefni í listabransanum. Almennt getur fólk í námi ekki fengið atvinnuleysisbætur ef það tekur fleiri en 10 einingar. Nanna starfar nú í hlutastarfi á frístundaheimili en því starfi lýkur fyrir sumarið. Því hefur hún verið í atvinnuleit, en ekki atvinnulaus.

„Eiginlega verið að segja manni að fara á atvinnuleysisbætur

Nýlega fékk hún tvö atvinnutilboð en bæði á þeim forsendum að henni fylgdi styrkur frá Vinnumálastofnun. Þar sem Nanna hefur ekki verið skráð atvinnulaus fylgir henni ekkert slíkt.

„Það er eiginlega verið að segja manni að fara á atvinnuleysisbætur og þá sé hægt að ráða mann eftir mánuð eða mánuði svo það er svolítið skringileg staða,“ segir Nanna. Hún ítrekar að hún hafi ekki yfir miklu að kvarta en að þetta gæti komið fólki í viðkvæmri stöðu illa.  

„Þetta er svolítið kafkaísk staða, að þurfa að fara í gegnum kerfið til þess að geta fengið vinnu,“ segir Nanna.

„Þetta er náttúrulega mjög jákvætt ef fólk sem er atvinnulaust er að fá vinnu en ég er ekkert endilega viss um að það sé að fá vinnu við hæfi. Þú ert ekkert endilega að fara að ráða flugmann í leiðsögumannsstarf. Það þarf að þjálfa fólk upp á nýtt í ýmsar stöður í staðinn fyrir að ráða fólk sem gegndi sömu stöðu áður og er með alla vitneskjuna og slíkt þótt það sé ekki búið að vera nægilega lengi atvinnulaust til þess að fá þennan háa styrk. Þetta setur bæði atvinnuleitendur og atvinnurekendur í svolítið skrýtna stöðu ef atvinnurekendur þurfa að hafna fólki sem er hæfast vegna þess að þeir fá peninga fyrir að ráða annað fólk.“

Skiljanlegt að atvinnurekendur grípi til þessara úrræða

Eins og áður segir hefur Nanna helst starfað í ferðaþjónustunni annars vegar og listabransanum hins vegar. Báðar atvinnugreinar hafa nánast legið niðri í kórónuveirufaraldrinum og lítið sem ekkert að hafa upp úr þeim. Nanna segist því skilja það vel að þau sem séu að ráða í þessum geirum eigi erfitt með að ráða fólk án þess að því fylgi styrkur frá Vinnumálastofnun.

„Ég er að vinna í ferðamálabransanum og listabransanum og það á enginn pening þar. Við eigum ekki pening nema við notum þessi úrræði.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert