Daniel nokkur Haussmann er einn þeirra fjölmörgu sem nýverið hafa lagt leið sína að gosstöðvunum utan í Fagradalsfjalli til að mynda það úr lofti með dróna.
Ein flugferðin hlaut þó snöggan endi þegar glóandi hraunið hæfði vélfyglið sem Haussmann hafði stýrt yfir gígaröðina.
Í viðtali á vefnum PetaPixel segir Haussmann frá því að dróninn hafi þrátt fyrir allt lifað áreksturinn af. Aðeins séu rispur á plastinu sem hylur innra byrðið og nokkur brunaför á gripnum.
„Ég var eiginlega viss á einu sekúndubroti um að hann væri farinn. En einhvern veginn, ósjálfrátt, náði ég aftur jafnvægi og með fullri innspýtingu reyndi ég að ná nægri hæð til að koma honum út úr hættusvæðinu, þar sem beggja vegna voru nýjar sprungur sem byrjaði að gjósa úr fyrr þennan dag. Ég flaug drónanum strax aftur að flugtaksstað og dró svo djúpt andann,“ segir Haussmann.
„Ætli ég hafi ekki verið heppinn að þetta hitti ekki hreyflana eða myndavélina,“ bætir hann við, en myndir af drónanum fylgja umfjölluninni.